Selfyssingar eru í óða önn að undirbúa lið sitt fyrir Pepsideild karla í knattspyrnu. Selfoss lagði 2. deildarlið ÍH í æfingaleik í kvöld, 7-0, á Selfossvelli.
Eins og tölurnar gefa til kynna voru Selfyssingar mun sterkari aðilinn og þeir skoruðu fimm mörk í fyrri hálfleik. Henning Eyþór Jónasson braut ísinn með marki úr vítaspyrnu og síðan fylgdu tvö mörk frá Sævari Þór Gíslasyni. Ingþór Jóhann Guðmundsson skoraði fjórða markið áður en Sævar Þór kórónaði þrennuna og leikar stóðu 5-0 í hálfleik.
Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss, gerði miklar breytingar á liði sínu í hálfleik. Miðverðirnir Kjartan Sigurðsson og Agnar Bragi Magnússon spiluðu allan leikinn ásamt Jóhanni Ólafi Sigurðssyni markverði. Sævar Þór, Henning og Einar Ottó spiluðu allir í fyrri hálfleik og eru að komast á skrið eftir lítinn bolta í vetur.
Selfyssingar voru ekki eins beittir í sókninni í síðari hálfleik en skoruðu þó tvö mörk. Davíð Birgisson skoraði það fyrra og hinn 16 ára gamli Ingvi Rafn Óskarsson skoraði sjöunda markið, sitt fyrsta fyrir Selfoss.