Selfoss rústaði toppslagnum

Katla María Magnúsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var mikil spenna fyrir toppslag Selfoss og Gróttu í 1. deild kvenna í handbolta á Selfossi í kvöld. Liðin í efstu tveimur sætum deildarinnar en Selfoss á toppnum. Það breyttist ekki í kvöld, Selfosskonur mættu hrikalega ákveðnar til leiks og unnu stórsigur, 39-21.

Selfoss leiddi allan leikinn, þær skoruðu fyrstu fjögur mörk leiksins en Grótta náði að minnka muninn í 8-7. Selfoss spýtti þá í lófana og staðan var 15-10 í hálfleik.

Heimakonur gerðu áhlaup í upphafi seinni hálfleiks og komust í 22-12 og eftir það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda.

Katla María Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 12 mörk, Tinna Sigurrós Traustadóttir og Perla Ruth Albertsdóttir skoruðu báðar 8, Harpa Valey Gylfadóttir 4, Hulda Dís Þrastardóttir 3, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 2 og þær Adela Jóhannsdóttir og Kristín Una Hólmarsdóttir skoruðu 1 mark hvor.

Cornelia Hermansson varði 15 skot í marki Selfoss og Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 5.

Selfoss er í toppsæti deildarinnar með 22 stig og á leik til góða á Gróttu sem er í 2. sæti með 18 stig.

Fyrri greinÖruggur Þórssigur á útivelli
Næsta greinÁsgeir Snær til Selfoss