Selfoss samþykkir tilboð Start í Babacar

Selfoss hefur samþykkt tilboð norska úrvalsdeildarliðsins Start í senegalska miðjumanninn Babacar Sarr.

Óskar Sigurðsson, formaður knattspyrnudeildar Umf. Selfoss, staðfestir þetta á vef Aftenbladet. Óskar vill ekki gefa upp kaupverðið en segir samninginn góðan fyrir báða aðila og að Selfoss hafi tryggt sér hluta af ágóðanum af næstu sölu á leikmanninum.

Félög í Skandinavíu hafa verið áhugasöm um að fá Babacar í sínar raðir og hann fór meðal annars til reynslu hjá Start í haust og leist mönnum þar vel á kappann.

Í sömu frétt á vef Aftenbladet vilja forráðamenn Start ekki staðfesta að tilboðið hafi verið staðfest.

Babacar, sem er 21 árs gamall, hefur leikið með Selfossi undanfarin tvö keppnistímabil og verið algjör lykilmaður í liðinu. Hann var annar af leikmönnum ársins í 1. deildinni árið 2011 en átti erfiðara uppdráttar í Pepsi-deildinni í sumar.

Gangi samningaviðræður Babacar við Start upp í kjölfarið verður hann þriðji Selfyssingurinn til að ganga í raðir norsks úrvalsdeildarliðs á síðustu vikum, í kjölfar Jóns Daða Böðvarssonar og Guðmundar Þórarinssonar.

Fyrri greinBlásið til undirritunar
Næsta greinStrokufanginn enn á flótta