Selfoss sat eftir í seinni hálfleik

Ísak Júlíus Perdue. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti Þór Akureyri í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Þórsarar tóku leikinn í sínar hendur í seinni hálfleik og sigruðu 87-71.

Leikurinn var hnífjafn í fyrri hálfleik og staðan var 43-40 í leikhléi. Þriðji leikhluti var kaflaskiptur hjá Selfyssingum en steininn tók úr á síðustu þremur mínútum hans en Þórsarar skoruðu þrettán stig í röð og staðan var orðin 69-53 í upphafi 4. leikhluta.

Selfoss náði góðu áhlaupi í kjölfarið og minnkaði muninn í sjö stig, 71-64, en Þórsarar áttu meira á tanknum á lokamínútunum og unnu að lokum sextán stiga sigur.

Vojtéch Novák var stigahæstur Selfyssinga með 24 stig og 10 fráköst og Ísak Júlíus Perdue skoraði 12 stig og sendi 4 stoðsendingar.

Selfyssingar eru áfram á botni deildarinnar með 4 stig en Þórsarar eru í 7. sæti með 10 stig.

Þór Ak.-Selfoss 87-71 (26-23, 17-17, 24-13, 20-18)
Tölfræði Selfoss: Vojtéch Novák 24/10 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 12/5 fráköst, Birkir Máni Sigurðarson 9, Ari Hrannar Bjarmason 9/5 fráköst, Arnór Bjarki Eyþórsson 7, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 5/8 fráköst, Svavar Ingi Stefánsson 4, Gísli Steinn Hjaltason 1.

Fyrri greinSveitarfélögin krefjast lausna við læknaskorti
Næsta greinÞórsarar kafsigldu Valsmenn