Selfoss fékk Stjörnuna í heimsókn í Olísdeild kvenna í handbolta í dag. Stjörnukonur reyndust sterkari og úrslitin í Set-höllinni urðu 24-33.
Stjarnan leiddi allan leikinn, gestirnir skoruðu tvö fyrstu mörkin og juku forskotið jafnt og þétt. Staðan var 6-10 um miðjan fyrri hálfleikinn og 11-16 í hálfleik.
Stjarnan byrjaði betur í seinni hálfleiknum og fljótlega var munurinn kominn upp í tíu mörk. Stjarnan bætti enn í um miðjan seinni hálfleikinn og náðu mest fjórtán marka forskoti en Selfyssingar skoruðu síðustu fjögur mörk leiksins og minnkuðu muninn í níu mörk, lokatölur 24-33.
Katla María Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 7/3 mörk, Roberta Stropé skoraði 6, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 3, Ásdís Þóra Ágústsdóttir, Rakel Guðjónsdóttir og Tinna Sigurrós Traustadóttir 2 og þær Inga Sól Björnsdóttir og Adela Jóhannsdóttir skoruðu 1 mark hvor.
Cornelia Hermansson varði 14 skot í marki Selfoss og var með 31% markvörslu.
Selfoss er í 7. sæti deildarinnar með 2 stig en Stjarnan er í 2. sæti með 12 stig.