Níu ungir og efnilegir knattspyrnumenn skrifuðu á dögunum undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss.
Leikmennirnir eru allir á aldrinum 16-18 ára og leika með 2. og 3. flokki félagsins auk þess sem nokkrir þeirra hafa fengið smjörþefinn af meistaraflokksleikjum nú í sumar.
Þetta eru þeir Adam Örn Sveinbjörnsson, Alfredo Ivan Arguello Sanabria, Anton Breki Viktorsson, Arilíus Óskarsson, Guðmundur Aðalsteinn Sveinsson, Jökull Hermannsson, Kristinn Sölvi Sigurgeirsson, Þorkell Ingi Sigurðsson og Þormar Elvarsson.
„Við erum hrikalega ánægðir að hafa gengið frá samningum við þessa ungu leikmenn. Framtíðin hjá knattspyrnudeildinni er svo sannarlega björt,“ segir Adólf Ingvi Bragason, formaður deildarinnar.
Hann bætir við að stefna deildarinnar sé mjög skýr. „Við ætlum að fjárfesta í unga fólkinu okkar og mynda góðan kjarna af heimamönnum í meistraflokki karla og kvenna á Selfossi. Við viljum að Selfoss sé það lið sem gefur ungu fólki tækifæri. Það er síðan þeirra að stunda æfingar vel og grípa tækifærið þegar það gefst.“
Að sögn Adólfs verður nýtt skipulag í yngri flokka þjálfun félagsins kynnt í haust.
„Við erum að fjölga þjálfurum í öllum yngri flokkum, við munum bæta við afreksþjálfun og fara af stað með sérhæfða markvarðaþjálfun í yngri flokkunum. Það eru mjög spennandi tímar framundan í fótboltanum á Selfossi og það verður gaman að fylgjast með þessum ungu leikmönnum framtíðarinnar,“ segir Adólf ennfremur.
Leikmennirnir með pennana á lofti ásamt þjálfarateymi meistaraflokks og 2. flokks. sunnlenska.is/Guðmundur Karl