Selfoss semur við nýjan markvörð

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari meistaraflokks, býður Kelsey Wys velkomna á Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við bandaríska markvörðinn Kelsey Wys um að leika með liði félagsins í Pepsi Max deild kvenna í sumar.

Selfoss hafði áður framlengt samning markvarðarins Caitlyn Clem til tveggja ára en hún meiddist illa í sínum fyrsta leik í Lengjubikarnum í vetur og mun ekki leika knattspyrnu í sumar.

Wys er reyndur markvörður, 28 ára gömul, en hún kemur til Selfoss frá Washington Spirit í bandarísku atvinnumannadeildinni. Hún var liðsfélagi Dagnýjar Brynjarsdóttur hjá háskólaliði FSU áður en hún var valin átjánda í nýliðavali bandarísku atvinnumannadeildarinnar til Western New York Flash árið 2014.

Wys hefur verið á mála hjá Washington Spirit frá árinu 2015 en árið 2016 var hún lánuð til Newcastle Jets í Ástralíu þar sem hún meiddist í þriðja leik. Hún sneri aftur inn á völlinn í æfingaleikjum hjá Washington Spirit á síðasta ári.

Wys hefur leikið með flestum yngri landsliðum Bandaríkjanna, síðast með U23 ára liðinu árið 2013.

Fyrri greinEitt stærsta fasteignaþróunarverkefni á landinu að hefjast í Ölfusi
Næsta greinÞoka eign bauð lægst í grasslátt við ströndina