Selfyssingar eru komnir í undanúrslit bikarkeppni karla í handbolta eftir öruggan sigur á ÍBV í SET-höllinni á Selfossi í dag, 33-28.
Selfoss byrjaði betur í leiknum og var í raun skrefinu á undan allan tímann. Munurinn varð mestur fimm mörk í fyrri hálfleik en Eyjamenn áttu alltaf góðar rispur inn á milli, án þess þó að ná að saxa forskotið alveg niður. Staðan var 15-12 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri, Selfoss náði sex marka forystu en þá komu Eyjamenn til baka og náðu að minnka muninn í tvö mörk. Þá hysjuðu Selfyssingar aftur upp um sig og luku leik með fimm marka forskoti.
Ragnar Jóhannsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, en hann var óstöðvandi framan af leiknum. Hergeir Grímsson og Einar Sverrisson skoruðu 6, Atli Ævar Ingólfsson og Richard Sæþór Sigurðsson 5, Guðjón Baldur Ómarsson 2 og þeir Ísak Gústafsson og Tryggvi Þórisson skoruðu 1 mark hvor.
Vilius Rasimas átti góðan dag í marki Selfoss, varði 15 skot og Sölvi Ólafsson varði 1/1 skot.
Úrslitin í bikarkeppninni munu ráðast á „Final4“ viku á Ásvöllum í Hafnarfirði 10.-12. mars, þar sem undanúrslitaleikirnir verða spilaðir á fimmtudagskvöldi og úrslitaleikurinn á laugardag.