Selfoss sigraði í hörkuleik

Selfoss og ÍF Mílan áttust við í 1. deild karla í handbolta í kvöld, í fyrsta grannaslag liðanna. Mílan leiddi í hálfleik en Selfoss tók öll völd í seinni hálfleik og sigraði 28-23.

Stemmningin var öll Mílumegin í upphafi leiks, Selfoss komst í 1-0 en eftir það náði Mílan undirtökunum og leiddi með 1-2 mörkum. Þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 7-9 og Mílumenn fengu þrjú tækifæri til þess að auka muninn í þrjú mörk en fljótfærni í sókninni kom í veg fyrir það.

Selfyssingum gekk illa að stöðva Atla Kristinsson sem raðaði inn mörkunum framan af leik og sömuleiðis var Ástgeir Sigmarsson að verja vel í marki Mílunnar. Mílan hélt líka uppi góðri stemmningu í varnarleiknum og Eyvindur Hrannar Gunnarsson varði hvert skotið á fætur öðru í hjarta varnarinnar.

Selfyssingar komu þó til baka undir lok fyrri hálfleiks og þegar 25. mínútur voru liðnar af leiknum jafnaði Gunnar Ingi Jónsson, 10-10, en staðan var 12-13 í hálfleik.

Leikurinn snerist við í síðari hálfleik, Selfyssingar urðu hreyfanlegri í vörninni og tóku Atla Kristinsson úr umferð. Þetta riðlaði sóknarleik Mílunnar nokkuð og þeir fóru að reyna erfið skot sem Sebastian Alexandersson átti ekki erfitt með að verja. Basti stóð í markinu í síðari hálfleik og var með 57% markvörslu. Í sóknarleik Selfoss var Jóhann Erlingsson drjúgur en fremstur í flokki var Egidijus Mikalonis sem kom inn af bekknum og skoraði sjö glæsileg mörk.

Jóhann kom Selfyssingum yfir, 17-16 þegar rúmar níu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og eftir það litu Selfyssingar ekki um öxl heldur juku forskotið jafnt og þétt. Munurinn varð mestur sex mörk, 26-20, þegar tvær og hálf mínúta var eftir en lokatölur urðu 28-23.

Egidijus og Jóhann voru markahæstir Selfyssinga með 7 mörk, Sverrir Pálsson skoraði 3/1, Hörður Másson, Hergeir Grímsson og Gunnar Ingi Jónsson skoruðu allir 2 mörk, Guðjón Ágústsson, Elvar Örn Jónsson, Ómar Helgason og Árni Geir Hilmarsson 1 og Andri Már Sveinsson 1/1.

Sebastian varði 12 skot í marki Selfoss og var með 57% markvörslu og Sölvi Ólafsson varði 6 skot og var með 30% markvörslu.

Í liði Mílunnar var Atli Kristinsson markahæstur með 9/1 mörk, Ársæll Einar Ársælsson skoraði 4/1, Ívar Grétarsson 3, Róbert Daði Heimisson og Magnús Már Magnússon 2, Rúnar Hjálmarsson 2/2 og Óskar Kúld 1.

Ástgeir Sigmarsson varði 13 skot í marki Mílunnar, flest í fyrri hálfleik og var með 31% markvörslu.

Fyrri greinHrunamenn fengu KR heima
Næsta greinViðbrögð þjálfaranna: „Skemmtileg upplifun“