Kvennalið Selfoss lagði Aftureldingu á heimavelli, 4-3, í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í kvöld.
Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik og Melanie Adelman kom þeim yfir snemma leiks. Afturelding jafnaði skömmu síðar en Selfoss svaraði fyrir sig með tveimur góðum mörkum frá Valorie O’Brien.
Staðan var 3-1 í hálfleik en Selfosskonur mættu vankaðar til leiks í seinni hálfleik og eftir nokkrar mínútur var staðan orðin 3-3.
Eftir það var leikurinn í járnum og liðin skiptust á að sækja. Þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum tók Guðmunda Óladóttir á sprett upp kantinn og sendi góða fyrirgjöf inn í teig. Þar lagði varamaðurinn Katrín Rúnarsdóttir boltann snyrtilega fyrir sig og laumaði honum framhjá markverði Aftureldingar.
Bæði lið hefðu getað bætt við mörkum á lokakaflanum og boltinn hafnaði m.a. í þverslánni á marki Selfoss.
Selfoss er nú í sjötta sæti deildarinnar með sjö stig og leikur næst í Vestmannaeyjum, gegn ÍBV á mánudaginn.