Ungmennafélag Selfoss sigraði örugglega í stigakeppni Aldursflokkamóts HSK í frjálsum íþróttum sem fram fór á Selfossi í síðustu viku.
Sex félög sendu keppendur til leiks og sigraði Selfoss með 526 stig en Selfyssingar fóru samtals 88 sinnum á verðlaunapall á mótinu. Í 2. sæti var sameinað lið Heklu og Garps með 191 stig og Þjótandi í 3. sæti með 109 stig.
Eins og sunnlenska.is greindi frá í síðustu viku var eitt Íslandsmet sett á mótinu en Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, kastaði 51,11 m í spjótkasti og sigraði í 13 ára flokki.
Árangur Hjálmars er að sjálfsögðu HSK met í hans flokki en tólf önnur héraðsmet litu dagsins ljós á mótinu. Tvíburarnir Þórhildur Lilja og Þorvaldur Gauti Hafsteinsbörn settu samtals 11 met í 600 metra hlaupi. Þorvaldur Gauti hljóp á 1:35,86 mín sem er héraðsmet í öllum flokkum frá 14 ára flokki og upp í karlaflokk. Hann bætti fimm ára gamalt met Dags Fannars Einarssonar um 0,37 sekúndur. Þórhildur Lilja hljóp á 1:46,87 mín. og bætti HSK metið í fimm flokkum, frá 14 ára flokki og upp í 20-22 ára flokk. Harpa Svansdóttir átti gamla metið, 1:48,19 sett árið 2012.
Keppni í 3.000 m hindrunarhlaupi kvenna var aukagrein á mótinu og þar setti Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, HSK met í öldungaflokki 30-34 ára. Fjóla Signý hljóp á 13:11,83 mín.