Selfoss tryggði sér í gær sigurinn á Ragnarsmóti kvenna í handbolta. Selfoss vann ÍBV 27-24 í lokaumferð mótsins.
Jafnt var á flestum tölum en Eyjastúlkur með frumkvæðið frá upphafi og þær náðu að búa sér til tveggja marka forystu í hálfleik 11-13. Selfyssingar mættu sprækar úr leikhléinu og voru fljótlega búnar að jafna og enn var leikurinn í járnum. Þegar tíu mínútur voru eftir komst Selfoss yfir í fyrsta sinn og þær létu ekki forystuna af hendi eftir það.
Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga í leiknum með 10 mörk, Katla María Magnúsdóttir skoraði 7, Harpa Valey Gylfadóttir og Hulda Dís Þrastardóttir 3 og þær Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir, Arna Kristín Einarsdóttir, Ágústa Tanja Jóhannsdóttir og Adela Eyrún Jóhannsdóttir skoruðu 1 mark hver.
Í hinum leik gærdagsins sigruðu Víkingar FH 30-28. ÍBV varð í 2. sæti mótsins, FH í því þriðja og Víkingar ráku lestina.
Í mótslok voru meistararnir krýndir og einstaklingsviðkurkenningum útdeilt. Perla Ruth Albertsdóttir, Selfossi, var valin leikmaður mótsins en hún var einnig markahæst með 28 mörk. Harpa Valey Gylfadóttir, Selfossi, var besti sóknarmaðurinn, Marta Wawrzynkowska, ÍBV, besti markmaður mótsins og liðsfélagi hennar, Sunna Jónsdóttir, besti varnarmaðurinn.