Ungmennafélag Selfoss sigraði á Héraðsmóti HSK í frjálsum íþróttum sem haldið var á Selfossi í síðustu viku.
Selfyssingar háðu harða og spennandi keppni við öflugt lið Garps/Heklu en heimamenn höfðu að lokum sigur með 266,5 stig og Garpur/Hekla varð í 2. sæti með 249,5 stig. Í 3. sæti voru Hrunamenn með 25 stig.
Selfoss sigraði kvennakeppnina örugglega með 184 stig, Garpur/Hekla varð í 2. sæti með 63 stig og Hrunamenn í 3. sæti með 25 stig. Garpur/Hekla sigraði karlakeppnina af sama öryggi, með 186,5 stig, Selfoss varð í 2. sæti með 82,5 stig og Þjótandi í 3. sæti með 9 stig.
Hinn fimmtán ára gamli Veigar Þór Víðisson, Garpi, fór mikinn á mótinu en hann sigraði í fimm greinum. Veigar Þór varð hlutskarpastur í 100 m hlaupi, 110 m grindahlaupi, hástökki og þrístökki auk þess sem hann var í gullsveit Garps/Heklu í 4×100 m boðhlaupi. Veigar Þór varð stigahæsti keppandinn í karlaflokki en í kvennaflokki var Fjóla Signý Hannesdóttir, Selfossi, stigahæst.
Annars var það hin fjórtán ára gamla Ísold Assa Guðmundsdóttir, Selfossi, sem var sigursælust í kvennaflokki en hún varð fjórfaldur héraðsmeistari. Ísold Assa sigraði í hástökki, þrístökki og stangarstökki og var í B-sveit Selfoss sem sigraði í 4×100 m hlaupi.
Á héraðsmóti er keppt um Jónsbikarinn í 5.000 m hlaupi karla. Stefán Kári Smárason, Breiðabliki, keppti sem gestur á mótinu og sigraði á tímanum 18:10,43 mín og hlaut því Jónsbikarinn að þessu sinni.
Mótið fór fram við hinar ágætustu aðstæður á Selfossi þó að frekar kalt hafi verið í veðri. Vindur var löglegur í flestum hlaupum og stökkum og fjölmargar bætingar litu dagsins ljós.