Það var heldur betur fjör á Selfossvelli í dag þegar Grindavík heimsótti Selfoss í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Selfoss sigraði að lokum, 5-3.
Adam Örn Sveinbjörnsson kom Selfyssingum yfir strax á 2. mínútu með góðu skallamarki en Grindavík jafnaði eftir snarpa sókn á 23. mínútu. Selfyssingar fengu vítaspyrnu nánast í næstu sókn á eftir þegar brotið var á Valdimar Jóhannssyni. Guðmundur Tyrfingsson fór á punktinn og skoraði af öryggi.
Grindvíkingar tóku leikinn yfir í kjölfarið og jöfnuðu 2–2 á 35. mínútu en gestirnir áttu síðan nokkrar mjög góðar sóknir undir lok fyrri hálfleiks en inn vildi boltinn ekki.
Leikurinn var í járnum framan af seinni hálfleik. Grindavík skoraði úr aukaspyrnu á 54. mínútu en Gonzalo Zamorano jafnaði jafnharðan fyrir Selfoss og fjórum mínútum síðar skoraði Ingvi Rafn Óskarsson stórglæsilegt mark og kom Selfyssingum í 4-3. Leikurinn var áfram opinn en mörkin létu á sér standa á lokakaflanum, allt þar til Þorlákur Breki Baxter komst í góða stöðu í teignum á lokamínútunni og skoraði fimmta og síðasta mark Selfyssinga í leiknum.
Selfyssingar eru nú í 6. sæti deildarinnar með 28 stig en Grindavík í 10. sæti með 24 stig. Þar fyrir neðan eru KV og Þróttur sem eru fallin þegar tvær umferðir eru eftir í deildinni.