Selfoss sigraði með yfirburðum á héraðsmótinu í frjálsum

Hluti af liði Selfoss á verðlaunapalli á héraðsmótinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennafélag Selfoss sigraði með miklum yfirburðum á héraðsmóti fullorðinna í frjálsum íþróttum sem haldið var á Selfossvelli á mánudag og þriðjudag í þessari viku.

Selfoss fékk 208 stig í heildarstigakeppninni en Ungmennafélagið Hekla kom næst með 38 stig. Í karlakeppninni fékk Selfoss 86 stig og Hekla varð í 2. sæti með 38 stig og í kvennakeppninni fékk Selfoss 122 stig en Ungmennafélag Biskupstungna varð í 2. sæti með 18 stig.

Goði og Fjóla stigahæst
Stigahæstu keppendur mótsins urðu Goði Gnýr Guðjónsson, Umf. Heklu og Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss.

Fjóla Signý varð fimmfaldur héraðsmeistari en hún sigraði í 200 m hlaupi, 100 m grindahlaupi, langstökki og þrístökki auk þess sem hún var í boðhlaupssveit Selfoss í 4×100 m boðhlaupi. Hildur Helga Einarsdóttir, Umf. Selfoss, varð ferfaldur meistari en hún sigraði í kúluvarpi, kringlukasti, spjótkasti og sleggjukasti.

Hjá körlunum urðu Selfyssingarnir Dagur Fannar Einarsson og Ólafur Guðmundsson þrefaldir héraðsmeistarar. Dagur Fannar sigraði í 100 m hlaupi, 110 m grindahlaupi og stangarstökki og Ólafur sigraði í kúluvarpi og kringlukasti auk þess sem hann hljóp í sveit Selfoss í 4×100 m boðhlaupi.

Metaregn hjá Óla Guðmunds
Það var sannkallað metaregn hjá Ólafi Guðmundssyni á mótinu því hann setti fjögur héraðsmet í öldungaflokki 50-54 ára. Hann byrjaði á því að tvíbæta 5 ára gamalt met Guðmundar Nikulássonar í sleggjukasti og endaði þar í 35,98 m en gamla metið var 22,04 m. Þá tvíbætti hann einnig héraðsmet Guðmundar Nikulássonar í spjótkasti. Ólafur kastaði lengst 37,44 m en sjö ára gamalt met Guðmundar var 33,95 m.

Jón Steinar Sandholt, Umf. Selfoss, sigraði í 5.000 m hlaupi, Jónshlaupinu, og hlaut að launum farandbikarinn sem gefinn er til minningar um Jón H. Sigurðsson frá Úthlíð.

Fyrri greinÓmar Smári bæjarlistamaður Ísafjarðar
Næsta greinTap gegn Val í fyrsta leik