Selfoss tryggði sér í kvöld sæti í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta með mögnuðum sigri á deildarmeisturum ÍA í lokaumferð deildarinnar í Vallaskóla.
Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann. ÍA hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik og leiddi 52-56 í hálfleik. Selfyssingar voru frábærir í upphafi seinni hálfleiks og náðu þar forskoti sem þeir héldu allt til leiksloka, þó að Skagamenn hafi andað hressilega ofan í hálsmálið á þeim undir lokin. Lokatölur urðu 115-108.
Þetta var þriðji sigur Selfyssinga í röð í deildinni og þeir tryggðu sér þar með síðasta sætið í úrslitakeppninni og mæta Ármanni í 8-liða úrslitum.
Follie Bogan var stiga- og framlagshæstur Selfyssinga með 29 stig og þeir Vojtéch Novák og Skarphéðinn Árni Þorbergsson áttu sömuleiðis magnaðan leik, Novák skoraði 25 stig og tók 7 fráköst og Skarphéðinn skoraði 21 stig og sendi 6 stoðsendingar.
Hamar lagði Snæfell og mætir Snæfelli
Hamarsmenn voru búnir að tryggja sér heimavallarrétt í úrslitakeppninni fyrir nokkru síðan og þeir tóku á móti Snæfelli í Hveragerði í kvöld. Þar þurfti framlengingu til að ná fram úrslitum en Hamar sigraði að lokum 126-118 en staðan í hálfleik var 57-53. Hamar og Snæfell mætast í 8-liða úrslitunum.
Jaeden King átti magnaðan leik fyrir Hamar og var með þrefalda tvennu, 38 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos var drjúgur með 31 stig og Birkir Máni Daðason átti sömuleiðis stórleik með 22 stig, 5 fráköst, 8 stoðsendingar og 6 varin skot.
Í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar mætast:
Ármann – Selfoss
Hamar – Snæfell
Sindri – Breiðablik
Fjölnir – Þór Ak
Fyrstu leikir úrslitakeppninnar verða leiknir 28. og 29. mars
Selfoss-ÍA 115-108 (24-25, 28-31, 33-21, 30-31)
Tölfræði Selfoss: Follie Bogan 29/6 fráköst, Vojtéch Novák 25/7 fráköst/5 stoðsendingar, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 21/6 stoðsendingar, Birkir Máni Sigurðarson 14, Tristan Máni Morthens 7, Ísak Júlíus Perdue 6/7 stoðsendingar, Arnór Bjarki Eyþórsson 6/6 fráköst, Ari Hrannar Bjarmason 5, Fróði Larsen Bentsson 2.
Hamar-Snæfell 126-118 (25-27, 32-26, 25-29, 25-25, 19-11)
Tölfræði Hamars: Jaeden King 38/11 fráköst/10 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 31/7 fráköst/6 stoðsendingar, Birkir Máni Daðason 22/5 fráköst/8 stoðsendingar/6 varin skot, Ragnar Agust Nathanaelsson 13/14 fráköst, Lúkas Aron Stefánsson 11, Egill Þór Friðriksson 9, Daníel Sigmar Kristjánsson 2/4 fráköst/8 stoðsendingar.