Selfoss sigraði örugglega á héraðsmótinu

Sigurlið Selfoss. Ljósmynd/HSK

Alls kepptu 45 keppendur frá sex aðildarfélögum HSK á héraðsmóti HSK í frjálsum sem haldið var á Selfossvelli í síðustu viku. Samhliða því móti fór fram héraðsmót fatlaðra í frjálsum, þar sem fjórir keppendur voru skráðir til leiks.

Ólafur Guðmundsson, Umf. Selfoss, var sigursælasti keppandinn í karlaflokki, en hann vann fjórar greinar, þar á eftir kom Daníel Breki Elvarsson, Umf. Selfoss, með þrjá titla. Í kvennaflokki vann Helga Fjóla Erlendsdóttir, Íþf. Garpi, þrjár einstaklingsgreinar. Þær Ísold Assa Guðmundsdóttir, Umf. Selfoss og Hugrún Birna Hjaltadóttir, Umf. Selfoss, unnu einnig þrjár greinar alls, tvær einstaklingsgreinar og boðhlaup. María Sigurjónsdóttir úr Suðra vann þrjár kastgreinar á héraðsmóti fatlaðra.

Eitt HSK met var sett á héraðsmótinu, en Jón Marteinn Andreasen Finnbogason, Umf. Gnúpverja, bætti 18 ára gamalt met Haraldar Gísla Kristjánssonar um rúmar 12 sekúndur í 800 metra hlaupi í flokki 30-34 ára. Jón hljóp á 2:40,15 mín.

Í lok móts voru veitt sérverðlaun fyrir stigahæstu keppendur mótsins og sigurvegara í stigakeppni félaga. Helga Fjóla varð stigahæst í kvennaflokki og Daníel Breki var stigahæsti karl mótsins. Selfoss vann stigabikarinn örugglega með 303,5 stig, Dímon varð í öðru sæti með 53 stig og Garpur varð í þriðja með 47,5 stig.

Úrslit mótsins má sjá hér.

Það var fjölskyldustemning í fyrri riðli 200 m hlaups karla þar sem meðal annars öttu kappi þeir (f.v.) Marteinn Maríus Marinósson og bræðurnir Jón Marteinn Andreasen Finnbogason og Marinó Fannar Garðarsson. Jón Marteinn setti síðar HSK met í sínum aldursflokki í 800 m hlaupi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Verðlaunahafar í spjótkasti karla. Fyrir miðju er Daníel sem varð stigahæsti karl á mótinu. Ljósmynd/HSK
María Sigurjónsdóttir úr Suðra vann þrjár kastgreinar á héraðsmóti fatlaðra. Ljósmynd/HSK
Helga Fjóla Erlendsdóttir stigahæsta kona mótsins. Ljósmynd/HSK
Fyrri greinHáspenna á Selfossvelli
Næsta greinMyndbandið fór í sjóinn