Þrír erlendir leikmenn eru til skoðunar hjá Pepsi-deildarliði Selfoss í knattspyrnu og sá fjórði bætist við á morgun.
Í samtali við sunnlenska.is sagði Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss, að engar ákvarðanir hafi verið teknar varðandi þessa leikmenn. Málin yrðu skoðuð vandlega en hann ætti alveg eins von á því að nýjir leikmenn væru komnir með leikheimild fyrir leikinn gegn Fylki á sunnudaginn.
Tveir leikmannanna koma frá norska 1. deildarliðinu Lyn, Bi Hverve „Bolou“ Guessan, 19 ára framherji og Jean Stephane Yao Yao, tvítugur miðvallarleikmaður. Báðir eru þeir frá Fílabeinsströndinni. Lyn var sem kunnugt er tekið til gjaldþrotaskipta um síðustu mánaðamót og vegna óvissu um dvalarleyfi í Noregi voru þeir félagar áhugasamir um að koma til Íslands.
Þriðji leikmaðurinn er sænskur, Martin Dohlsten, og kemur hann frá Ljungskile sem leikur í superettunni, B-deildinni í Svíþjóð. Dohlsten er 24 ára gamall og hefur frá 18 ára aldri leikið í efstu eða næst efstu deild í Svíþjóð, sem hægri bakvörður eða vængmaður.
Fjórði erlendi leikmaðurinn bætist í hópinn á morgun en það er skoskur framherji sem kemur til landsins fyrir milligöngu John MacLelland, sem lék með Selfyssingum um síðustu aldamót. Skotinn kemur frá liði á Nýja-Sjálandi og mun vera hreinræktaður sóknarmaður.
Selfoss mun ekki semja við Austurríkismennina Patrick Berger og Armin Sommerauer, sem æft hafa með liðinu síðustu daga, og halda þeir til sinna heima á morgun.