Kvennalið Selfoss tapaði illa gegn nágrönnum sínum í ÍBV þegar liðin mættust í Set-höllinni á Selfossi í Olísdeildinni í handbolta í dag.
Selfoss skoraði tvö mörk á fyrstu tveimur mínútum leiksins og síðan ekki nema tvö mörk til viðbótar það sem eftir lifði af fyrri hálfleik. ÍBV hafði ótrúlegt forskot í leikhléi, 4-23. Marta Wawrzykowska, markvörður ÍBV, var maður leiksins með fáheyrðar tölur, 28/1 skot varin og 60% markvörslu.
Sóknarleikur Selfoss gekk betur í seinni hálfleiknum en úrslitin voru löngu ráðin og lokatölur urðu 19-40.
Roberta Stropé var markahæst Selfyssinga með 7 mörk, Katla María Magnúsdóttir skoraði 4, Arna Kristín Einarsdóttir 3/1, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 3 og þær Karlotta Óskarsdóttir og Hulda Hrönn Bragadóttir skoruðu 1 mark hvor.
Áslaug Ýr Bragadóttir varði 7/2 skot í marki Selfoss og var með 29% markvörslu og Cornelia Hermansson varði 2 skot og var með 9% markvörslu.
Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 7. sæti með 4 stig en ÍBV er í 2. sæti með 20 stig, jafnmörg stig og topplið Vals.