Selfoss slátraði Ísbirninum

Gonzalo Zamorano skoraði þrennu fyrir Selfoss í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Alls voru 26 mörk skoruð í leikjum sunnlensku liðanna þriggja sem áttu leik í 1. umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu í dag. Selfoss og Uppsveitir eru komin í 2. umferð en Árborg er úr leik.

Selfoss, sem leikur í 1. deildinni, mætti 4. deildarliði Ísbjarnarins á gervigrasinu við Kórinn í Kópavogi. Selfoss mætti með sitt sterkasta lið og er óhætt að segja að Ísbjörninn hafi verið leiddur til slátrunar. Lokatölur urðu 10-1 og var strax á upphafsmínútunum ljóst hvert stefndi því staðan eftir rúmar 20 mínútur var 3-0. Gonzalo Zamorano skoraði þrennu fyrir Selfoss og Gary Martin tvö mörk. Chris Jastrzembski, Jón Vignir Pétursson og Hrvoje Tokic skoruðu allir eitt mark og Ísbjörninn skoraði eitt sjálfsmark.

Enn fleiri mörk voru skoruð í viðureign Uppsveita og Kríu á Gróttuvellinum á Seltjarnarnesi. Bæði lið lögðu allt kapp á sóknarleikinn en að lokum sigruðu Uppsveitamenn 8-5. Staðan í hálfleik var 3-1 fyrir Uppsveitum en þegar tíu mínútur voru eftir hafði Kría náð að minnka muninn í 6-5. Uppsveitamenn skoruðu tvö síðustu mörkin og flugu á vængjum ástarinnar inn í 2. umferðina. Kristinn Sölvi Sigurgeirsson var atkvæðamestur Uppsveitamanna, skoraði þrennu, George Chariton og Máni Snær Benediktsson skoruðu báðir tvö mörk og Ernir Vignisson eitt.

Í hádegisleiknum heimsótti Árborg Kára í Akraneshöllina. Káramenn gerðu út um leikinn með þremur mörkum á átta mínútna kafla undir lok fyrri hálfleiks. Lokatölur 3-0.

Það verður Suðurlandsslagur í 2. umferðinni því það kemur í ljós á mánudagskvöldið hvort Selfoss mætir Hamri eða KFR. Uppsveita bíður verðugt verkefni því þeir mæta Reyni Sandgerði í 2. umferð. Á morgun kemur líka í ljós hvort Stokkseyri kemst í 2. umferð en Stokkseyringar mæta Hvíta riddaranum á gervigrasinu á Selfossi kl. 15.

Fyrri greinTæpum 36 milljónum úthlutað úr uppbyggingarsjóði
Næsta greinSex framboðlistar í Árborg