Selfoss spilar um 5. sætið

Selfoss tapaði 27-33 gegn HK og Grótta sigraði Aftureldingu 26-29 á þriðja keppnisdegi Ragnarsmótsins í handbolta í Vallaskóla á Selfossi í kvöld.

Selfyssingar byrjuðu ágætlega gegn HK en HK-menn náðu upp fjögurra marka forskoti fyrir hálfleik, 12-16. Í seinni hálfleik náði Selfoss að minnka muninn niður í eitt mark, 22-23, en nær komust Selfyssingar ekki og HK sigraði örugglega að lkum.

Sverrir Pálsson átti fínan leik og var langmarkahæstur í liði Selfoss með átta mörk. Daníel Arnar Róbertsson og Hörður Másson skoruðu fjögur mörk hvor, Andri Már Sveinsson og Gunnar Ingi Jónsson þrjú mörk, Sævar Ingi Eiðsson, Egidijus Mikalonis, Elvar Örn Jónsson, Guðjón Ágústsson og Gunnar Páll Júlíusson skoruðu allir eitt mark.

Í fyrri leik kvöldsins sigraði Grótta Aftureldingu 26 – 29 eftir að staðan var jöfn í hálfleik 12 – 12. Jafnt var á tölum fyrri hálfleikinn en Grótta seig fram úr í þeim seinni og sigraði nýliðana í úrvalsdeild með þremur mörkum. Birkir Benediktsson var markahæstur hjá Aftureldingu með sjö mörk en Viggó Kristjánsson skoraði átta mörk fyrir Gróttu.

Úrslitaleikir mótsins verða spilaðir á morgun, laugardag.

Kl. 12:00, leikur um 5. sæti: Selfoss – Afturelding
Kl. 14:00, leikur um 3. sæti: Grótta – HK
Kl. 16:00, leikur um 1. sæti: Valur – Stjarnan

Fyrri greinHerdís skipuð forstjóri HSu
Næsta greinTómas bestur hjá Árborg