Kvennalið Selfoss tapaði stórt í mikilvægum leik þegar liðið heimsótti KA/Þór í kvöld þegar keppni í Olísdeildinni hófst aftur eftir langt frí.
Leikurinn fór hratt af stað og var jafnræði með liðunum á upphafsmínútunum. Staðan var 5-5 eftir tíu mínútna leik en þá byrjuðu heimakonur að raða inn mörkum. KA/Þór gerði 8-3 áhlaup og breytti stöðunni í 13-8 en staðan var 14-10 í leikhléi.
Norðankonur gengu frá leiknum í upphafi síðari hálfleiks en KA/Þór náði tíu marka forskoti, 23-13, þegar tólf mínútur voru liðnar af seinni hálfleik.
Það var sama hvað Selfoss reyndi í sókninni, ekkert gekk upp en markverðir KA/Þórs áttu frábæran dag og vörðu samtals 25 skot á móti 11 vörðum skotum hjá Katrínu Ósk Magnúsdóttur í marki Selfoss.
Munurinn varð mestur þrettán mörk undir lok leiks, 32-19, en lokatölur urðu 33-22.
Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 7 mörk, Hulda Dís Þrastardóttir skoraði 5, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 3, Elín Krista Sigurðardóttir, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir og Sara Boye Sörensen skoruðu allar 2 mörk og Katla María Magnúsdóttir 1.
Selfyssingar sitja sem fyrr í botnsæti deildarinnar með 4 stig en KA/Þór er í 5. sæti með 10 stig.