Selfoss tapaði stórt þegar liðið mætti FH á Ragnarsmótinu í handbolta í kvöld. Lokatölur voru 22-36, Hafnfirðingum í vil.
Selfyssingar sáu aldrei til sólar í leiknum en FH leiddi 7-17 í hálfleik. Leikur heimamanna skánaði í síðari hálfleik en lokatölur voru 22-36.
Einar Pétur Pétursson, Matthías Halldórsson og Jóhann Erlingsson skoruðu allir 4 mörk fyrir Selfoss, Atli Kristinsson 3, Einar Sverrisson og Ómar Vignir Helgason 2 og þeir Jóhann Gunnarsson, Magnús Magnússon og Björn Freyr Gíslason skoruðu allir 1 mark. Markverðir Selfoss náðu sér ekki á strik í leiknum en Sverrir Andrésson varði 7 skot og Helgi Hlynsson 3.
Hjá FH var Ólafur Gústafsson markahæstur með 7 mörk, Ísak Rafnsson skoraði 5 og þeir Jóhann Karl Reynisson, Andri Berg Haraldsson og Ari Þorgeirsson skoruðu allir 4 mörk líkt og fyrrum leikmaður Selfoss og ætíð Selfyssingur, Ragnar Jóhannsson.
Í síðari leik kvöldsins lagði Afturelding ÍR 33-30. Mosfellingar höfðu sjö marka forskot í hálfleik, 19-12.
Jóhann Jóhannsson var markahæstur Aftureldingar með 8 mörk og Sverrir Hermannsson skoraði 7. Björgvin Hólmgeirsson skoraði næstum helming marka ÍR-inga, 14 talsins.