Selfoss steinlá í Eyjum

Kvennalið Selfoss mætir Þrótti R. í 4-liða úrslitum 1. deildar kvenna eftir 6-0 tap fyrir ÍBV í Vestmannaeyjum í dag.

Selfossliðið átti slakan leik í dag en Eyjaliðið var betra á öllum sviðum leiksins. Staðan var 3-0 í hálfleik og ÍBV bætti við þremur mörkum í síðari hálfleik. Guðmunda Brynja Óladóttir fékk besta færi Selfoss en hún brenndi af vítaspyrnu.

Þetta er fyrsta tap Selfossliðsins í deildinni í sumar en ÍBV tapaði einnig einum leik og tekur toppsæti riðilsins á markahlutfalli. ÍBV mætir Keflavík í úrslitakeppninni.

Úrslitakeppnin hefst næsta laugardag en þar er leikið er heima og heiman og liðið sem vinnur leikina tvo samanlagt tryggir sér sæti í Pepsi-deild kvenna.

Fyrri greinLangar biðraðir eftir ísnum
Næsta greinRautt á Djurovic í tapleik Ægis