Selfoss – Stjarnan 2-2

Selfoss og Stjarnan skildu jöfn í Pepsi-deild karla í kvöld, 2-2, þegar liðin mættust á Selfossvelli.

Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss, gerir eina breytingu á liði sínu frá sigurleiknum gegn Haukum. Agnar Bragi Magnússon kemur inn í liðið eftir leikbann á kostnað Kjartans Sigurðssonar sem átti prýðilegan leik gegn Haukum. Kjartan sest á bekkinn – en hann er svosem ekki í leiðinlegum félagsskap þar.

Fyrri hálfleikur: Leikur var jafn til að byrja með og bæði lið fengu færi til að komast yfir. Jóhann Ólafur var á tánum í marki Selfoss og þó að sóknir Stjörnumanna væru hættulegar fengu þeir aðeins eitt gott færi en boltanum var sparkað yfir á Álfheima, sem eru hérna hinu megin við Engjaveginn.
Selfyssingar komust yfir á 22. mínútu. Eftir hornspyrnu barst boltinn út fyrir teig á Jón Guðbrandsson sem stóð við stóru orðin og smurði knettinum upp í hægra hornið á markinu.
Sóknir Stjörnunnar þyngdust eftir þetta og jöfnunarmarkið lá í loftinu. Það kom á 45. mínútu þegar Steinþór Þorsteinsson fékk frían skalla af stuttu færi en Jóhann Ólafur var nálægt því að verja. 1-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikur: Síðari hálfleikur var nokkru fjörugri en sá fyrri. Stjörnumenn byrjuðu betur og uppskáru mark á 58. mínútu og virtust líklegri eftir það. Selfyssingum gekk illa að spila boltanum leikur liðsins var vandræðalegur á köflum.
Tíu mínútum síðar vænkaðist þó hagur Selfyssinga þegar Sævar Þór Gíslason slapp innfyrir og Bjarni Þórður Halldórsson felldi hann. Bjarni var ekki sáttur við þessa meðferð og mótmælti harkalega áður en hann drattaðist loksins af velli. Guðmundur Þórarinsson fór á punktinn – líklega af því að stóri bróðir var farinn útaf og hamraði knöttinn í netið.
Stjörnumenn reyndu að róa leikinn eins og þeir gátu eftir þetta og beita skyndisóknum. Þeir sýndu það að þeir kunna vel við sig á gervigrasi því þeir lágu í því tímunum saman og slakur dómari leiksins flautaði alltaf í kjölfarið.
Selfyssingar voru þó nær því að skora sigurmarkið því undir leikslok var gríðarlegur hamagangur í vítateig Stjörnunnar og þrisvar í röð náðu varnarmenn og markmaður liðsins að bjarga á ystu nöf. Allt kom fyrir ekki og liðin skiptu með sér stigunum.

Byrjunarlið Selfoss: Jóhann Ólafur Sigurðsson (M), Sigurður Eyberg Guðlaugsson, Arilíus Marteinsson, Agnar Bragi Magnússon, Andri Freyr Björnsson, Ingólfur Þórarinsson, Sævar Þór Gíslason, Guðmundur Þórarinsson, Stefán Ragnar Guðlaugsson, Jón Daði Böðvarsson, Jón Guðbrandsson.

Byrjunarlið Stjörnunnar: Bjarni Þórður Halldórsson (M), Tryggvi Sveinn Bjarnason, Jóhann Laxdal, Atli Jóhannsson, Daníel Laxdal, Halldór Orri Björnsson, Dennis Danry, Þorvaldur Árnason, Steinþór Freyr Þorsteinsson, Baldvin Sturluson, Marel Jóhann Baldvinsson.

Dómaratríóið er vel skipað en dómari leiksins er Erlendur Eiríksson málarameistari og aðstoðarmenn hans eru Rangæingurinn Jóhann Gunnar Guðmundsson og Vestmannaeyingurinn Smári Stefánsson. Eftirlitsmaður KSÍ er Sigurður Hannesson frá Stóru-Sandvík.

Fyrri greinÞórný Björk: Lífið á Eyrarbakka
Næsta grein„Þetta var þriggja stiga mark“