Selfoss tapaði 2-3 í hörkuleik gegn Þór Ak í 1. deild karla í knattspyrnu í dag. Grótta tapaði á sama tíma og því ljóst að Selfossliðið sleppur við fall.
„Þetta var ágætt í fyrri hálfleik. Við áttum góða kafla og slæma og ég held að heilt yfir hafi Þórsararnir ekki verið betri en við. En við erum sloppnir við fall og vonandi höfum við eitthvað til að byggja hér upp á næsta tímabili,“ sagði Andy Pew, miðvörður Selfossliðsins í leikslok.
„Við biðum aftarlega í seinni hálfleik og þeir þurftu nauðsynlega á sigrinum að halda. Við vissum svosem ekki hver örlög okkar yrðu en þeir þurftu meira á stigunum að halda og markið þeirra í upphafi seinni hálfleiks gerði út um leikinn,“ sagði Andy sem lék síðustu mínúturnar sem framherji, án árangurs. „Já, það kom ekkert út úr því. Ég hljóp þarna eins og fífl og ýtti mönnum,“ sagði Andy léttur.
Leikurinn fór rólega af stað en Selfyssingar áttu fyrsta færið. Á 13. mínútu komst Maniche í gott skotfæri en afgreiðsla hans var arfaslök. Mínútu síðar skoruðu hins vegar Þórsarar þegar Jóhann Helgi Hannesson labbaði með boltann í gegnum Selfossvörnina og Vignir náði ekki að verja.
Selfyssingar færðu sig framar eftir að Þórsarar komust yfir og uppskáru fljótlega mark. Eftir gott spil komst Maniche í skotfæri utarlega í vítateignum og boltinn söng í netinu.
Mark leiksins kom síðan á 29. mínútu þegar Selfyssingar hreinsuðu úr öftustu línu, boltinn skoppaði yfir varnarmann Þórs og Elton Barros kom á siglingunni, tók knöttinn á lofti og lét vaða upp í markhornið fjær. Rándýrt.
Fjörið í fyrri hálfleik var ekki búið því þremur mínútum síðar átti Guðmundur Steingrímsson skot að marki hinu megin. Það virtist hættulítið en fór í gegnum þvöguna í vörninni og undir Vigni Jóhannesson í marki Selfoss. 2-2 í hálfleik.
Það tók Þórsara ekki nema 37 sekúndur að koma knettinum í netið í seinni hálfleik. Selfoss tók miðju en Þór vann boltann strax, Jóhann Helgi átti skot sem Vignir varði út í markteiginn og þar skoraði Sveinn Elías Jónsson af stuttu færi.
Færin urðu ekki mikið fleiri í leiknum en þrátt fyrir það var hörkufjör í seinni hálfleiknum þar sem liðin tókust fast á á miðsvæðinu. Selfyssingar fengu þó færi á því að jafna í uppbótartíma þegar þeir fengu aukaspyrnu fyrir utan vítateig Þórs. Manice tók spyrnuna en Sandor Matus varði frábærlega í marki Þórs.
Lokatölur 2-3 en á sama tíma tapaði Grótta sínum leik og það er því ljóst að Selfyssingar eru sloppnir við fallið. Grótta og BÍ/Bolungarvík fara niður í 2. deild.