Selfoss tapaði 2-6 þegar topplið Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu, Þór/KA, kom í heimsókn á Selfossvöll í kvöld.
Björn Kristinn Björnsson lenti í basli með liðsuppstillinguna þar sem meiðsli hrjá hóp Selfoss. Anna María Friðgeirsdóttir, Fransiska Pálsdóttir og Thelma Sif Kristjánsdóttir eru allar meiddar og Katrín Rúnarsdóttir var að jafna sig eftir veikindi en hún kom þó inná á 55. mínútu fyrir Guðmundu Ólafsdóttur sem fór meidd af velli og var borin inn í klefa.
Eins og svo oft áður í sumar voru Selfyssingar á hælunum þegar inn í leikinn var komið og eftir þrettán mínútna leik var staðan orðin 0-2.
Á 3. mínútu slapp Sandra María Jessen vinstra megin innfyrir vörn Selfoss og renndi boltanum örugglega framhjá Nicole McClure í markinu. Tíu mínútum síðar opnuðu Þórsarar vörn Selfoss upp á gátt og aftur var Sandra María á ferðinni vinstra megin. Nú skoraði hún með hniðmiðuðu skoti framhjá McClure alveg út við fjærstöngina. Tveimur mínútum kom há sending innfyrir sem Selfyssingar misstu af en McClure kom út á móti og varði vel frá Katrínu Ásbjörnsdóttir, sem var sloppin innfyrir.
Þegar fimmtán mínútur voru liðnar af leiknum hristu Selfyssingar af sér hrollinn og við tók fínn kafli þar sem boltinn gekk vel á milli manna og við það jókst sjálfstraust liðsins.
Á 20. mínútu fékk Katrín Ýr Friðgeirsdóttir boltann hægra megin og sendi góða sendingu fyrir þar sem Melanie Adelman kom aðvífandi á fjærstöng og skoraði af öryggi. Á 27. mínútu fengu gestirnir hornspyrnu sem fór aftur fyrir endamörk. McClure var fljót að taka markspyrnuna, sendi á Evu Lind Elíasdóttur á miðjunni og hún kom boltanum beint inn á Guðmundu Óladóttur. Guðmunda stakk varnarmenn Þórs/KA af og sýndi frábæra boltatækni þegar hún vippaði boltanum utan vítateigs yfir markvörð gestanna og í netið.
Staðan orðin 2-2 og síðustu fimmtán mínútur fyrri hálfleiks einkenndust af stöðubaráttu milli liðanna. Á 44. mínútu sluppu gestirnir innfyrir vörn Selfoss en McClure varði vel og strax í næstu sókn komst Eva Lind innfyrir hinu megin á vellinum og átti bara markvörðinn eftir en skaut í hliðarnetið. 2-2 í hálfleik.
Seinni hálfleikur hófst á mígandi rigningu og í kjölfarið fjölgaði mistökum leikmanna á blautum vellinum. Á 50. mínútu handlék markvörðurinn McClure boltann í vítateignum eftir sendingu frá samherja og Þór/KA fékk óbeina aukaspyrnu af átta metra færi. Varnartilburðir Selfoss í aukaspyrnunni voru illa útfærðir og Kayle Grimsley skaut í varnarmann og inn.
Þór/KA var sterkari aðilinn í seinni hálfleik og Selfyssingar sköpuðu sér lítið af færum. Gestirnir voru þó full bráðlátir í sókninni og voru ítrekað rangstæðir.
Á 66. mínútu tók Katrín Ásbjörnsdóttir nettan snúning á miðjunni og sendi innfyrir á Söndru Maríu sem skaut að marki. McClure varði en blautur boltinn slapp úr höndum hennar og skaust yfir markið. Uppúr hornspyrnunni skoraði svo Lára Einarsdóttir fjórða mark gestanna eftir barning í teignum þar sem Selfyssingum gekk illa að hreinsa frá.
Skondið atvik átti sér stað á 70. mínútu þegar Kristrún Rut Antonsdóttir, sem átti fínan leik á miðjunni fyrir Selfoss, togaði hressilega í einn andstæðinganna og átti skilið gult spjald fyrir. Dómarinn lét leikinn halda áfram og boltinn var í leik í dágóða stund en þegar hann fór útaf lyfti dómarinn spjaldinu og spjaldaði Bergþóru Gná Hannesdóttur fyrir brotið. Hún þrætti hins vegar fyrir spjaldið og eftir nokkra umhugsun spjaldaði dómarinn Evu Lind fyrir sama brot og þar við sat. Kristrún slapp hinsvegar við áminninguna.
Þór/KA skoraði svo fimmta markið á 73. mínútu þegar Tahnai Annis fékk sendingu frá vinstri, stakk sér innfyrir vörnina og skoraði af stuttu færi.
Eina færi Selfoss í seinni hálfleik kom á 87. mínútu þegar brotið var á Evu Lind fyrir utan vítateiginn en Chantel Jones í marki Þórs/KA gerði vel í að verja góða aukaspyrnu Katrínar Ýrar.
Í uppbótartímanum bætti Þór/KA við sjötta markinu eftir góða sókn. Boltinn barst fyrir frá hægri þar sem McClure mistókst að kýla hann frá. Boltinn féll fyrir fætur Lillýar Rutar Hlynsdóttur sem átti ekki í erfiðleikum með að skora.
Með sigrinum heldur Þór/KA toppsætinu með 19 stig en Selfoss er áfram í 8. sæti deildarinnar með 7 stig.