Selfoss heimsótti Fylki í kvöld í Olís-deild kvenna í handbolta. Eftir hörkuleik höfðu Fylkiskonur betur, 21-17.
Selfoss hafði frumkvæðið fyrsta korterið og leiddi 3-6 að sextán mínútum liðnum. Selfyssingum tókst hins vegar ekki að skora fleiri mörk á síðustu fjórtán mínútum fyrri hálfleiks þar sem markvörður Fylkis skellti í lás en hún varði samtals 23 skot í leiknum. Staðan var því 8-6 í hálfleik.
Í upphafi seinni hálfleiks náðu Selfyssingar að jafna, 9-9, en þá svöruðu Fylkiskonur með fimm mörkum í röð og leiddu 14-9 þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Selfyssingum tókst ekki að brúa þetta bil en munurinn varð minnstur þrjú mörk, 19-16.
Nær komust þær vínrauðu ekki og Fylkir sigraði með fjögurra marka mun.
Þuríður Guðjónsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, en hún skoraði öll sín mörk í seinni hálfleik. Kristrún Steinþórsdóttir og Perla Albertsdóttir skoruðu báðar 3 mörk, Hildur Øder Einarsdóttir 2 og þær Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Harpa Brynjarsdóttir skoruðu sitt markið hvor.
Áslaug Ýr Bragadóttir varði 13/2 skot í marki Selfoss.