Selfoss tapaði í rokinu

Selfoss tapaði 0-1 þegar Breiðablik kom í heimsókn á JÁVERK-völlinn á Selfossi í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í morgun.

Blikar höfðu yfirhöndina lengst af en Selfyssingar áttu góða spretti og hefðu getað komist yfir í fyrri hálfleik þegar Pachu skaut í stöng. Blikar komust hins vegar yfir á 42. mínútu þegar Guðmundur Atli Steinþórsson sneri á varnarmann Selfoss og skoraði gott mark.

Þetta reyndist eina mark leiksins en liðunum gekk erfiðlega að láta boltann ganga í seinni hálfleik vegna veðurs. Selfyssingar sóttu undan stífum vindi en tókst ekki að skora. Blikar hefðu hins vegar getað aukið forskot sitt en þeir misnotuðu vítaspyrnu í seinni hálfleiknum.

Selfoss er enn án stiga í riðli-2 í A-deildinni en Breiðablik er í 2. sæti með 10 stig, eins og Fylkir.

Fyrri greinRangárþing ytra úr leik
Næsta greinSiglt eftir góðu stigi til Eyja