Kvennalið Selfoss beið nauman ósigur gegn Haukum í N1-deildinni í handbolta í dag. Lokatölur á Selfossi voru 21-23.
Selfoss leiddi á upphafsmínútum leiksins en Haukar náðu að jafna, 4-4, og höfðu síðan frumkvæðið lengst af leiknum.
Hið unga lið Selfoss stóð reyndar í Haukum allan tímann og voru Selfosskonur óheppnar að ná ekki einhverju út úr leiknum. Þar spilaði inn í reynsluleysi á mikilvægum augnablikum en þó munaði mestu um leikstjórnandann Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur sem gat ekki verið með í dag.
Hjá Selfoss var nýji leikmaðurinn Carmen Palamariu markahæst en hún skoraði 8 mörk þar af 5 úr vítum, Kristrún Steinþórsdóttir skoraði 5 mörk og hin 16 ára Þuríður Guðjónsdóttir skoraði 3. Tinna Soffía Traustadóttir skoraði 2 mörk og þær Kara Rún Árnadóttir, Hildur Öder Einarsdóttir og Thelma Sif Kristjánsdóttir skoruðu allar eitt mark.