Lokaumferðir 1. og 2. deildar karla í knattspyrnu fóru fram í gær. Selfoss tapaði fyrir Grindavík en Ægir slapp við fall eftir jafntefli við Aftureldingu.
Ragnar Þór Gunnarsson kom Selfyssingum yfir á 24. mínútu í Grindavík en heimamenn jöfnuðu metin á 44. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.
Grindavík komst í 2-1 strax í upphafi síðari hálfleiks og þegar tæpur hálftími var eftir af leiknum fékk Ragnar Þór beint rautt spjald og Selfyssingar því manni færri á lokakaflanum.
Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Grindvíkinga sem skoruðu tvö mörk á lokakafla leiksins og sigruðu 4-1.
Selfoss lauk keppni í 1. deildinni í 9. sæti deildarinnar með 26 stig. Liðið vann sjö leiki, gerði fimm jafntefli og tapaði tíu leikjum.
Fallbaráttan í 2. deildinni var æsispennandi. Ægir og Afturelding voru bæði í fallhættu fyrir lokaumferðina en sluppu bæði við fall með 0-0 jafntefli þar sem Reynir Sandgerði náði ekki að leggja Fjarðabyggð að velli.
Reynir féll því ásamt Völsungi með 22 stig, eins og Afturelding, en Ægir og Njarðvík eru þar fyrir ofan með 24 stig. Ægir lauk keppni í 9. sæti með sjö sigra, þrjú jafntefli og tólf tapleiki.