Selfosskonur héldu norður fyrir heiðar í dag og mættu KA/Þór í Olísdeild kvenna í handbolta á Akureyri. Heimakonur reyndust sterkari aðilinn og unnu öruggan sigur.
Leikurinn var jafn framan af, staðan var 5-5 eftir tólf mínútna leik en þá skriðu Akureyringarnir framúr og leiddu fram að leikhléi, þó að Selfoss hafi aldrei verið langt undan. Staðan var 16-13 í hálfleik.
Selfoss náði að minnka muninn í eitt mark í upphafi seinni hálfleiks en þá tóku heimakonur við sér og náðu mest átta marka forskoti. Sigur KA/Þórs var aldrei í hættu og lokatölur urðu 27-22.
Katla María Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 8/1 mörk, Ásdís Þóra Ágústsdóttir skoraði 4, Rakel Guðjónsdóttir 3, Roberta Stropé og Tinna Soffía Traustadóttir 2 og þær Katla Björg Ómarsdóttir, Kristín Una Hólmarsdóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir skoruðu allar 1 mark.
Ágústa Jóhannsdóttir varði 10/1 skot í marki Selfoss og var með 20% markvörslu og Cornelia Hermansson varði 7 skot og var með 24% markvörslu.
Eftir fjórar umferðir er Selfoss í 7. sæti deildarinnar með 2 stig.