Selfoss tapaði í botnslagnum

Kristrún Steinþórsdóttir skoraði 5 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru aftur komnir í botnsæti Olísdeildar kvenna í handbolta en liðið hafði sætaskipti við Stjörnuna í kvöld eftir innbyrðis leik liðanna í Garðabæ. Stjarnan sigraði 25-21.

Leikurinn var jafn fyrsta korterið en þá tóku Stjörnukonur á sprett og skoruðu fimm mörk í röð og breyttu stöðunni í 9-5. Selfoss náði að minnka muninn í tvö mörk í kjölfarið en Stjarnan jók forskotið aftur og leiddi með fjórum mörkum í hálfleik, 14-10.

Stjarnan hafði frumkvæðið í seinni hálfleik og hafði tveggja marka forskot lengst af, allt þar til tólf mínútur voru eftir af leiknum. Þá var staðan 20-18 en Stjarnan skoraði þá fjögur mörk í röð og gerði út um leikinn.

Sóknarleikur Selfoss var mjög kaflaskiptur í leiknum og hlutirnir gengu ekki upp á lokamínútunum.

Kristrún Steinþórsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, Harpa Brynjarsdóttir skoraði 4/2, Perla Ruth Albertsdóttir 3, Hulda Dís Þrastardóttir 2/1, Sarah Boye Sörensen og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 2 og þær Katla María Magnúsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu báðar 1 mark.

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 6 skot í marki Selfoss og var með 19% markvörslu en Selfyssingurinn Hildur Öder Einarsdóttir fór hamförum í marki Stjörnunnar, varði 15 skot og var með 42% markvörslu.

Selfoss hefur 3 stig í botnsæti deildarinnar þegar níu umferðum er lokið en Stjarnan er einu sæti ofar með 5 stig.

Fyrri greinErna framlengir við Selfoss
Næsta greinÍAV bauð lægst í breikkun Suðurlandsvegar