Selfoss beið nauman ósigur í framlengdum leik þegar liðið heimsótti Álftanes í 1. deild karla í körfubolta í kvöld, 81-79.
Leikurinn var jafn framan af en í 2. leikhluta náðu Selfyssingar örlitlu forskoti og leiddu 28-34 í hálfleik.
Selfyssingar voru ekki á tánum í upphafi seinni hálfleiks þar sem Álftnesingar réðu lögum og lofum og náðu að snúa leiknum sér í vil, 57-50. Selfossliðið kvittaði hins vegar fyrir það í 4. leikhluta og náði að jafna, 69-69, þegar 26 sekúndur voru eftir af leiknum. Þeir voru hins vegar klaufar að ná ekki sigurkörfunni á lokasekúndunum þar sem Álftanes missti boltann tvívegis en fleiri stig voru ekki skoruð í venjulegum leiktíma.
Selfoss náði fimm stiga forskoti í upphafi framlengingarinnar en Álftanes jafnaði 74-74 þegar þrjár mínútur voru eftir og hafði frumkvæðið eftir það. Selfyssingar áttu síðasta skot leiksins, en það geigaði og Álftanes fagnaði 81-79 sigri.
Christian Cunningham var stigahæstur Selfyssinga með 29 stig auk þess sem hann tók 22 fráköst. Kristijan Vladovic skoraði 19 stig og Arnór Bjarki Eyþórsson 14.
Selfoss hefur áfram 10 stig í 6. sæti deildarinnar en Álftanes er með 16 stig í 4. sætinu.