Kvennalið Selfoss tapaði stórt gegn ÍBV í Olísdeildinni í handbolta í dag, úti í Eyjum. Með sigrinum tryggði ÍBV sér deildarmeistaratitilinn.
ÍBV leiddi allan leikinn, þær komust í 5-1 og náðu mest átta marka forskoti í fyrri hálfleik. Staðan í leikhléi var 21-15.
Það gekk ekkert upp hjá Selfyssingum í upphafi seinni hálfleiks og ÍBV náði fimmtán marka forskoti. Selfoss náði að minnka muninn í tíu mörk en nær komust þær ekki og lokatölur urðu 41-27.
Katla María Magnúsdóttir var allt í öllu hjá Selfyssingum, hún skoraði 14/3 mörk. Hulda Hrönn Bragadóttir skoraði 5 mörk, Arna Kristín Einarsdóttir 3, Rakel Guðjónsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir 2 og Adela Jóhannsdóttir 1.
Cornelia Hermansson varði 11 skot í marki Selfoss og var með 24% markvörslu og Áslaug Ýr Bragadóttir varði 1/1 skot og var með 14% markvörslu.