Selfoss tapaði toppslagnum

Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði mark Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss tapaði dýrmætum stigum í toppbaráttu úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar topplið Vals kom í heimsókn.

Eftir afspyrnurólegan fyrri hálfleik fóru leikar að æsast í upphafi seinni hálfleiks en Mist Edvardsdóttir kom Val yfir með skallamarki eftir hornspyrnu á 48. mínútu. Rúmum fimm mínútum síðar jafnaði Hólmfríður Magnúsdóttir metin með stórkostlegu marki þegar hún smurði boltanum undir þverslána af löngu færi.

Valskonur voru sterkari þegar leið á leikinn og fengu nokkur ágæt færi en Guðný Geirsdóttir varðist þeim fimlega í marki Selfoss. Hún kom þó engum vörnum við á 77. mínútu þegar Elín Metta Jensdóttir skoraði sigurmarkið. Aftur eftir fast leikatriði, nú aukaspyrnu sem Mist fleytti inn á vítateiginn og þar var Elín mætt.

Selfyssingar hafa aðeins náð í tvö stig í síðustu fimm leikjum eftir frábæra byrjun. Íslandsmótið er nú hálfnað og tímasetningin því tilvalin fyrir liðið að núllstilla sig og ná vopnum sínum á nýjan leik. Selfoss er með 14 stig í 3. sæti en Valur er með 20 stig í toppsætinu. Þar á milli er Breiðablik með 18 stig.

„Við höldum bara áfram. Stigasöfnunin hefur verið dræm í síðustu leikjum, það er bara eins og það er. Frammistaðan inni á vellinum hefur verið mjög góð en við erum ekki að ná að afgreiða þessi móment sem skipta máli í leikjunum,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, brúnaþungur í leikslok í kvöld.
Fyrri greinFullur og fastur á Klaustri
Næsta greinUpplýsingar fyrir íbúa í Flóahreppi og Sveitarfélaginu Árborg vegna KIA Gullhringsins