Selfoss sigraði Víking í leik um 5. sætið á Ragnarsmótinu í handbolta í gær en Grótta stóð uppi sem sigurvegari á mótinu.
Selfoss var sterkari aðilinn gegn Víkingi, staðan var 15-12 í hálfleik en yfirburðir Selfoss voru miklir í seinni hálfleik og unnu þeir að lokum tíu marka sigur, 32-22.
Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Hans Jörgen Ólafsson skoraði 6, Álvaro Mallols og Tryggvi Sigurberg Traustason 4, Jason Dagur Þórisson og Sæþór Atlason 3, Haukur Páll Hallgrímsson og Anton Breki Hjaltason 2 og Patrekur Þór Guðmundsson Öfjörð 1.
Vilius Rasimas varði 9 skot í marki Selfoss og Jón Þórarinn Þorsteinsson 8.
Grótta vann KA örugglega í úrslitaleik mótsins, 33-26 og ÍBV varð í 3. sæti eftir öruggan sigur á ÍR í miklum markaleik, 40-32.
Í mótslok voru veitt einstaklingsverðlaun og var Tryggvi Sigurberg Traustason valinn besti sóknarmaðurinn. Arnór Viðarsson, ÍBV, var valinn besti leikmaður mótsins, Einar Baldvin Baldvinsson, Gróttu, var besti markvörðurinn og Ólafur Gústafsson, KA, besti varnarmaðurinn.