Selfoss tók nýliðana í kennslustund

Brenna Lovera skoraði tvö og lagði upp eitt. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss vann öruggan 1-4 sigur á nýliðum Aftureldingar í 1. umferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu í Mosfellsbæ í kvöld.

Selfoss stjórnaði leiknum í fyrri hálfleik og var frábært flæði í sóknarleik liðsins. Strax á 3. mínútu komust þær yfir, Barbára Sól Gísladóttir átti þá frábæra sendingu úr bakverðinum inn fyrir vörn Aftureldingar. Þar var fyrirliðinn Unnur Dóra Bergsdóttir mætt og hún var ekkert að flækja hlutina heldur skaut laglega yfir Evu Ýr Helgadóttur, markvörð Aftureldingar.

Á tíundu mínútu kom önnur góð sókn sem endaði með því að Bergrós Ásgeirsdóttir átti frábæra fyrirgjöf og Brenna Lovera skallaði boltann snyrtilega í netið.

Þriðja mark Selfoss lá í loftinu en lét þó á sér standa. Magdalena Reimus slapp innfyrir á 19. mínútu en Eva Ýr varði frábærlega frá henni og á 31. mínútu skallaði Brenna boltann rétt framhjá. Susanne Friedrichs lokaði svo fyrri hálfleiknum með þrumuskoti í stöngina á marki Aftureldingar og staðan var því 0-2 í hálfleik.

Tvítekið víti gaf heimakonum von
Seinni hálfleikur byrjaði fjörlega. Áslaug Dóra Sveinbjörnsdóttir var brotleg innan teigs eftir fjögurra mínútna leik og Afturelding fékk vítaspyrnu. Tiffany Sornpao, markvörður Selfoss, varði spyrnu Hildar Gunnarsdóttur en dómari leiksins lék endurtaka spyrnuna þar sem Tiffany átti að hafa stigið af línunni áður en skotið reið af. Hildur setti spyrnu númer tvö í stöngina og inn – óverjandi.

Selfyssingar voru ekki að svekkja sig mikið á þessu áliti dómaratríósins heldur geystust í sókn og tveimur mínútum síðar lá boltinn í netinu. Bergrós tók þá á rás inn í teiginn hægra megin og átti skot sem Eva Ýr varði en Brenna var mætt eins og gammur í frákastið og skoraði í autt markið.

Veislan hélt áfram, Selfoss hafði góð tök á leiknum og á 67. mínútu skoraði Barbára Sól Gísladóttir fjórða mark Selfoss með skalla af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf frá Brennu.

Leikurinn fjaraði út á lokakaflanum en Selfyssingar voru mun nær því að bæta við marki og Afturelding ógnaði lítið.

Góð byrjun á fótboltasumrinu og stutt í næsta leik, sem verður gegn ÍBV í Vestmannaeyjum á þriðjudaginn.

Fyrri greinUngarnir að skríða úr eggjunum
Næsta greinVið eldumst öll