Selfoss tryggði sér bikarinn eftir framlengingu

Selfyssingar fagna sigri á Laugardalsvellinum. Ljósmynd: fotbolti.net/Haukur Gunnarsson

Selfoss sigraði KFA 3-1 í framlengdum úrslitaleik neðrideildabikarkeppni KSÍ, Fótbolti.net-bikarnum, á Laugardalsvellinum í kvöld.

Það var skemmtileg stemning á þjóðarleikvanginum og Selfyssingar fjölmenntu á leikinn til að styðja sína menn. Það veitti ekki af stuðningnum framan af því KFA var sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og nær því að skora en staðan var 0-0 í hálfleik.

Leikurinn var í járnum framan af seinni hálfleik en á 54. mínútu komst KFA yfir þegar Birkir Ingi Óskarsson skoraði af stuttu færi. Það var ekki fyrr en tuttugu mínútur voru eftir af leiknum að það kviknaði einhver neisti hjá Selfyssingum og á 75. mínútu jafnaði Sesar Örn Harðarson metin með góðu skoti úr teignum. Staðan 1-1 eftir 90 mínútur og framlenging tók við.

Í framlengingunni fóru Selfyssingar á kostum og gerðu út um leikinn með tveimur mörkum með stuttu millibili. Á 99. mínútu átti Sesar góða fyrirgjöf frá vinstri sem varamaðurinn Brynjar Bergsson stangaði laglega í netið og þremur mínútum síðar var Sesar aftur á ferðinni með stoðsendingu á Gonzalo Zamorano sem skoraði glæsilegt mark.

Þeir vínrauðu fögnuðu vel með stuðningsmönnum sínum í leikslok, áður en Ingvi Rafn Óskarsson, fyrirliði, hóf bikarinn á loft. Gleðin var ekki minni á Tryggvatorgi rétt fyrir miðnætti þar sem tekið var á móti liðinu með flugeldasýningu í frábærri stemningu.

Fyrri greinLokakaflinn lakur á Ísafirði
Næsta greinAf hverju þetta tímabundna álag á útsvarið?