Kvennalið Selfoss vann stórsigur á ungmennaliði Vals í 1. deild kvenna í handbolta í dag og tryggði sér þar með deildarmeistaratitilinn og sæti í úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili.
Lokatölur í leiknum urðu 26-40 en staðan í hálfleik var 15-22. Jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik áður en Selfyssingar skriðu framúr. Forskot Selfoss var öruggt í seinni hálfleiknum og á lokakafla leiksins gáfu þær allt í botn og náðu fjórtán marka forskoti.
Perla Ruth Albertsdóttir var í miklu stuði í dag og skoraði 14 mörk í leiknum, Katla María Magnúsdóttir skoraði 10, Arna Kristín Einarsdóttir 9, Tinna Sigurrós Traustadóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 2 og þær Adela Jóhannsdóttir, Harpa Valey Gylfadóttir og Hulda Dís Þrastardóttir skoruðu allar 1 mark.
Cornelia Hermansson varði 7 skot í marki Selfoss og Áslaug Ýr Bragadóttir 4.