Tíu Selfyssingar tryggðu sér sigurinn í blálokin – Ægismenn töpuðu heima

Sigurður Hrannar Þorsteinsson sækir að marki KFA í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var mikil dramatík í 2. deild karla í knattspyrnu í dag. Selfoss náði í 1-0 útisigur á Egilsstöðum en Ægismenn töpuðu 0-1 heima gegn KFA.

Leikur Ægis og KFA var stál í stál lengst af. Gestirnir komust yfir með marki á 12. mínútu og reyndist það eina mark leiksins. Gestirnir voru sterkari í fyrri hálfleik en Ægismenn sköpuðu sér fín færi í seinni hálfleiknum og áttu meðal annars stangarskot en tókst ekki að finna jöfnunarmarkið.

Á Egilsstöðum voru Selfyssingar í heimsókn á Villa Park, heimavelli Hugins/Hattar. Selfyssingar voru manni færri nánast hálfan leikinn eftir að Daði Kolviður Einarsson fékk að líta sitt annað gula spjald í upphafi seinni hálfleiksins. Leikurinn var markalaus allt fram á 90. mínútu en í uppbótartímanum skoraði Gonzalo Zamorano eina mark leiksins og tryggði Selfyssingum sigurinn.

Það var ekki minni spenna í leik KFG og Víkings Ólafsvík í Garðabænum. Víkingar eru í hörku toppbaráttu en lentu snemma undir í dag. KFG komst í 4-2 á 88. mínútu en Víkingur skoraði tvö mörk í uppbótartímanum og tryggði Selfyssingurinn Gary Martin þeim 4-4 jafntefli á 94. mínútu.

Selfyssingar eru áfram á toppi 2. deildarinnar, nú með 22 stig og þar á eftir kemur Víkingur Ó með 19 stig. Ægir er í 5. sæti með 15 stig og missti KFA uppfyrir sig í dag en KFA er í 4. sæti með 16 stig.

Fyrri greinBíladellan blómstrar á Selfossi
Næsta greinStokkseyri sigraði í tíu marka leik