Selfoss-U deildarmeistari í 2. deild

Þeir Tryggvi Þórisson, Ísak Gústafsson og Hannes Höskuldsson hafa verið meðal leikmanna Selfoss U í vetur og eru einnig orðnir fastamenn í meistaraflokk karla. Ljósmynd: Umf. Selfoss / ESÓ

Ungmennalið Selfoss í handbolta varð á dögunum deildarmeistari í 2. deild karla.

Þetta varð ljóst þann 6. apríl síðastliðinn eftir að HSÍ ákvað að öllu frekara mótahaldi á tímabilinu yrði aflýst og efsta lið í hverri deild væri útnefnt deildarmeistari.

Selfoss U sat þá efst í 2. deild með 22 stig eftir 15 umferðir, með jafn mörg stig og Fram U.

Árni Geir Hilmarsson, þjálfari liðsins, var að vonum ánægður með titilinn. „Mér líður bara ótrúlega vel, ánægður að landa enn einum risatitlinum fyrir félagið. U-liðið er séð frá mínum bæjardyrum sem undirbúningur fyrir meistaraflokk. Staður fyrir þá sem vilja spila með meistaraflokki en eru ekki alveg klárir í Olísdeildina. Liðið er mestmegnis skipað strákum úr akademíunni með nokkrum eldri reynslumeiri leikmönnum í bland,“ segir Árni Geir.

Með titlinum tryggðu strákarnir sér einnig sæti í Grill66-deildinni, þar sem þeir munu keppa við erfiðari andstæðinga. „Næsta tímabil lítur mjög vel út. Það verður skemmtilegra fyrir strákana að spila í Grill-deildinni þar sem fleiri leikir eru erfiðir og gæðin eru miklu nær Olísdeildinni. Markmiðin eru fyrst og fremst þau að strákarnir nálgist þann klassa að þeir geti spilað fyrir meistaraflokk Selfoss“.

Bikarinn er ekki kominn í hús, eins og gefur að skilja, en það er ljóst að það verður tekin meistaramynd með bikarnum þegar bikarinn er lentur og Víðir gefur leyfi.

Fyrri greinBjarki Már markakóngur í Þýskalandi
Næsta greinStöðva landrof með heyrúllum