Selfyssingar unnu mikilvægan útisigur á Þrótti í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur voru 0-3.
Leikurinn var ekki nema sjö mínútna gamall þegar Viðar Örn Kjartansson kom Selfyssingum í 0-1. Boltinn barst fyrir markið þar sem Babacar Sarr skallaði fyrir á kollinn á Viðari sem sendi boltann í boga yfir markmann Þróttar.
Eftir þetta einkenndist leikurinn af barningi á báða bóga. Þróttarar voru meira með boltann en fátt var um færi á báða bóga og staðan var 0-1 í hálfleik.
Selfyssingar byrjuðu af krafti í seinni hálfleik og fengu snemma tvö góð færi sem fóru í súginn. Þróttarar voru að komast meira inn í leikinn þegar Selfoss komst í 0-2. Selfoss vann boltann á miðjunni og eftir flott spil upp völlinn og skeiðsprett frá Jóni Daða Böðvarssyni skoraði hann annað mark liðsins með frábæru skoti.
Selfyssingar bökkuðu talsvert eftir annað markið en Þróttarar bjuggu sér ekki til nein alvöru færi og Jóhann Ólafur Sigurðsson varði alla bolta sem komu nálægt rammanum.
Þegar fimmtán mínútur voru eftir gerði Viðar Örn síðan út um leikinn með þriðja markinu. Einar Ottó hirti boltann af Dusan Ivkovic og sendi á Viðar sem kláraði vel einn á móti markmanni. Eftir þetta voru Selfyssingar nær því að bæta við en Þróttur að minnka muninn en mörkin urðu þó ekki fleiri.
Sigurinn kom Selfyssingum upp í 2. sætið á markahlutfalli. Selfoss hefur 10 stig, eins og Fjölnir, Haukar og Þróttur, Selfoss hefur 6 mörk í plús en hin liðin þrjú mörk í plús.