Kvennalið Selfoss vann góðan sigur á KA/Þór í Olísdeildinni í handbolta í dag. Liðin mættust í Vallaskóla þar sem lokatölur urðu 23-21.
Fyrri hálfleikur var jafn og staðan að honum loknum var 10-9, Selfyssingum í vil. Selfoss byrjaði frábærlega í síðari hálfleik og komst í 18-12 en gestirnir minnkuðu muninn niður í tvö mörk áður en yfir lauk.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 11 mörk, Carmen Palamariu skoraði 6, Kristrún Steinþórsdóttir 3, Harpa Brynjarsdóttir 2 og Þuríður Guðjónsdóttir 1.
Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 15 skot í marki Selfoss og var með 42% markvörslu.
Eftir leiki dagsins er Selfoss í 6. sæti Olís-deildarinnar með 5 stig, að loknum fimm umferðum.