Kvennalið Selfoss tryggði sér sæti í Pepsideild kvenna í knattspyrnu á næsta tímabili með því að kjöldraga Keflavík á Selfossvelli í kvöld, 6-1.
Bæði lið virtust nokkuð taugatrekkt í upphafi og fátt var um færi allt þar til á 21. mínútu að Keflvíkingar sköpuðu mikinn usla í teig Selfoss en boltinn fór framhjá. Mínútu síðar átti Katrín Ýr Friðgeirsdóttir skot eftir hornspyrnu en Keflvíkingar björguðu á línu. Jafnræði var með liðunum en Selfoss var meira með boltann.
Á 31. mínútu braut Guðmunda Óladóttir ísinn fyrir Selfoss og eftir það héldu liðinu engin bönd. Guðmunda fékk góða sendingu innfyrir frá Evu Lind Elíasdóttur og skoraði af öryggi. Á 38. mínútu sólaði Guðmunda sig upp að marki Keflvíkinga en lét verja frá sér. Mínútu síðar fékk Selfoss hornspyrnu. Guðrún Arnardóttir stökk þar hæst allra í teignum og stangaði knöttinn stórglæsilega í netið. Selfyssingar voru ekki hættir því á 44. mínútu fékk Guðmunda boltann á miðjunni, sólaði einn Keflvíking, óð síðan upp að marki gestanna og lét vaða fyrir utan teig í vinstra markhornið.
3-0 í hálfleik og Selfyssingar í sólskinsskapi innan vallar sem utan þrátt fyrir sudda og sunnanátt.
Keflvíkingar byrjuðu betur í seinni hálfleik og strax á 47. mínútu varði Dagný Pálsdóttir skot frá gestunum af stuttu færi í markteignum. Gestirnir voru ákveðnari á miðsvæðinu en færin féllu Selfossmegin og Katrín Ýr og Guðmunda fengu dauðafæri með mínútu millibili á 52. og 53. mínútu en hittu ekki á markið. Fimm mínútum síðar komst Eva Lind í gegn, ein á móti markmanni en enn og aftur fór boltinn framhjá.
Á 69. mínútu kom fjórða mark Selfoss. Anna María Friðgeirsdóttir átti langa og háa sendingu fram völlinn af eigin vallarhelming, boltinn skoppaði yfir markvörð Keflavíkur í vítateignum og í netið.
Keflvíkingar minnkuðu muninn á 73. mínútu eftir aukaspyrnu og klafs í vítateignum. Selfoss jók forskotið hins vegar tveimur mínútum síðar þegar Katrín Ýr slapp ein inn á vítateig Keflavíkur og kláraði færið vel.
Þar með voru Selfyssingar farnir að skrúfa tappana af Pepsi flöskunum og ekki minnkaði stemmningin þegar Eva Lind skoraði sjötta markið af stuttu færi á 76. mínútu eftir góðan undirbúning Guðmundu.
Eftir þetta fjaraði leikurinn út og síðasta færið átti Thelma Sif Kristjánsdóttir en hún skallaði boltann rétt framhjá á 90. mínútu eftir aukaspyrnu utan af vinstri kantinum.
Þrjú ár eru síðan meistaraflokkur kvenna var endurvakinn á Selfossi og er óhætt að segja að uppgangurinn hafi verið hraður en þetta er annað árið í röð sem Selfoss leikur til úrslita um sæti í Pepsideildinni.
Guðrún Arnardóttir skorar annað mark Selfoss með glæsilegum skalla. sunnlenska.is/Guðmundur Karl