Selfyssingar lyftu sér úr fallsæti í Pepsi-deild karla í knattspyrnu þegar þeir unnu sanngjarnan sigur á Íslands- og bikarmeisturum KR á Selfossvelli í kvöld, 1-0.
Logi Ólafsson þurfti að gera tvær breytingar á liðinu síðan í jafnteflisleiknum gegn Breiðablik í síðustu umferð. Egill Jónsson, lánsmaður frá KR, var ekki í hóp og Tómas Leifsson var í leikbanni. Ivar Skjerve kom inn á miðjuna í stað Egils og Ólafur Finsen kom inn á kantinn fyrir Tómas.
Selfyssingar lágu aftarlega fyrstu fimmtán mínúturnar og leyfðu KR-ingum að halda boltanum. Hálffæri litu dagsins ljós í báðum vítateigunum en það var ekki fyrr en á 18. mínútu að Jon Andre Röyrane fékk fyrsta hættulega færið.
Jón Daði Böðvarsson sendi þá fyrir markið og Röyrane náði skoti en KR-ingar komust fyrir boltann og björguðu í horn. Upp úr hornspyrnunni skaut Jón Daði framhjá úr ágætu færi.
Leikurinn var í jafnvægi eftir þetta og liðin dugleg við að sækja. Ólafur Finsen lét Hannes Halldórsson verja frá sér í horn úr góðu færi á 38. mínútu en nokkrum sekúndum áður sleppti dómarinn því að dæma eitt augljósasta víti sem sést hefur á Selfossvelli í sumar þegar boltinn fór í hönd KR-ings innan vítateigsins.
Staðan var 0-0 eftir fjörugan fyrri hálfleik en fyrstu fimmtán mínútur síðari hálfleiks voru tíðindalitlar fyrir utan olnbogaskot sem Kjartan Finnbogason gaf Jon Andre – vitanlega án þess að dómaratríóið sæi til.
KR fékk tvö færi eftir um fimmtán mínútna leik í seinni hálfleik. Ismet Duracak varði vel frá Kjartani og Atli Sigurjónsson þrumaði svo í stöngina á Selfossmarkinu á 58. mínútu eftir kæruleysi í vörn Selfoss.
Ísinn var hins vegar brotinn á 62. mínútu þegar Jón Daði skoraði mark sumarsins. Hann tók sendingu frá Ólafi Finsen á lofti og lyfti boltanum yfir Hannes í marki KR.
Í kjölfarið fékk Viðar Örn Kjartansson tvö dauðafæri, á 68. mínútu lyfti hann boltanum framhjá Hannesi í marki KR en varnarmaður KR bjargaði á línu, þó að áhorfendum í sjónlínu hafi virst boltinn fara innfyrir línuna. Mínútu síðar skaut Viðar í hliðarnetið úr þröngu, en þokkalegu færi.
Pressa KR jókst síðustu tuttugu mínútunar en sigur Selfoss var skrifaður í skýin. Baráttuglaðir náðu Selfyssingar að vinna lausa bolta og vonleysislegar spyrnur KR-inga fram völlinn voru auðveldar viðureignar fyrir þá félaga Babacar Sarr á miðjunni og Bernard Brons og Stefán Guðlaugsson í vörninni.
Þegar fimm mínútur voru eftir átti Stefán heiðarlega tilraun til að smyrja boltanum í skeytin inn úr aukaspyrnu utan af velli en skotið fór rétt yfir. Þremur mínútum síðar slapp Ivar Skjerve innfyrir en setti boltann í hliðarnetið úr dauðafæri.
KR átti síðustu tilraun leiksins þegar Gary Martin komst í gott færi en Duracak bjargaði glæsilega.
Fögnuðurinn var mikill hjá heimamönnum, innan vallar sem utan, þegar lokaflautan gall á 95. mínútu. Selfoss er nú með 18 stig í tíunda sæti deildarinnar en Framarar koma næstir með 17 stig og eiga leik til góða.
Selfoss heimsækir næst Fylki, sunnudaginn 16. september.