Selfyssingar, sem leika í 2. deild, töpuðu naumlega fyrir úrvalsdeildarliði Fjölnis í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu á útivelli í Grafarvogi í kvöld.
Fyrri hálfleikurinn var bráðskemmtilegut og Selfyssingar voru fyrri til að skora. Guðmundur Tyrfingsson kom þeim yfir á 12. mínútu eftir aukaspyrnu inn á teiginn frá Þór Llorens Þórðarsyni. Fjölnismenn jöfnuðu rúmum tíu mínútum síðar en staðan var bara 1-1 í fjórar mínútur því á þeirri 28. skallaði Valdimar Jóhannsson boltann í netið og aftur átti Þór Llorens stoðsendinguna.
Fjölnismenn áttu sláarskot skömmu síðar og á 31. mínútu jöfnuðu þeir metin í 2-2 eftir að Stefán Þór Ágústsson, markvörður Selfoss, misreiknaði boltann. Fjölnismenn voru nær því að bæta við mörkum í fyrri hálfleik og boltinn fór tvisvar til viðbótar í tréverkið hjá Selfyssingum áður en flautað var til hálfleiks.
Seinni hálfleikurinn var mun rólegri, hvað færin snertir í það minnsta. Sigurmark Fjölnis leit dagsins ljós á 69. mínútu eftir mistök í vörn Selfoss. Selfyssingar áttu ekki mörg marktækifæri á lokakaflanum en gerðu þó tilkall til vítaspyrnu á 77. mínútu sem dómarinn gaf þeim ekki. Selfyssingar voru mjög ósáttir og Dean Martin þjálfari fékk að líta gula spjaldið.
Annars var einn af hápunktum seinni hálfleiksins þegar Dean Martin gerði þrefalda skiptingu og setti þrjá leikmenn inná sem allir heita Aron. Einn þeirra, Aron Fannar Birgisson var að spila sinn fyrsta meistaraflokksleik, en hinir voru Aron Darri Auðunsson og Aron Einarsson. Innkoma Aronanna varð ekki til þess að Selfyssingar næðu að jafna og eru þeir því úr leik í bikarnum í sumar eftir 3-2 tap.