Selfyssingar eru úr leik í bikarkeppni karla í handbolta eftir 32-24 tap gegn Haukum á útivelli í 32-liða úrslitum keppninnar í kvöld.
Um var að ræða hörkuleik framan af og staðan var jöfn í hálfleik, 16-16. Haukar reyndust hins vegar sterkari í seinni hálfleiknum þar sem þeir spiluðu góða vörn og sóknarleikur Selfyssingar hikstaði illilega. Selfoss skoraði aðeins átta mörk í seinni hálfleik.
Atli Ævar Ingólfsson og Einar Sverrisson skoruðu báðir 5 mörk fyrir Selfoss en Einar skoraði tvö af vítalínunni. Ragnar Jóhannsson skoraði 4 mörk, Gunnar Flosi Grétarsson 3, Hergeir Grímsson 2 og þeir Nökkvi Dan Elliðason, Ísak Gústafsson, Guðjón Baldur Ómarsson, Tryggvi Þórisson og Alexander Egan skoruðu allir 1 mark.
Alexander Hrafnkelsson varði 7 skot í marki Selfoss og var með 33% markvörslu og Vilius Rasimas varði 4 skot og var með 18% markvörslu.