Kvennalið Selfoss er úr leik í Eimskipsbikarnum í handbolta eftir 37-20 tap gegn úrvalsdeildarliði ÍBV á Selfossi í gærkvöldi.
ÍBV sem er í 4. sæti úrvalsdeildar kvenna í handknattleik átti ekki í miklum vandræðum með að leggja utandeildarlið Selfoss að velli. Selfyssingar börðust þó vel fyrir sínu og markmiðið var ekki annað en að leggja sig fram og njóta leiksins. Staðan var 8-16 í hálfleik og Eyjamenn létu kné fylgja kviði í seinni hálfleik.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 10 mörk. Thelma Sif Kristjánsdóttir skoraði 4, Thelma Einarsdóttir 3 og þær Guðrún Hergeirsdóttir, Helga Einarsdóttir og Edda Eggertsdóttir skoruðu allar eitt mark.
Lið Selfoss er í ágætum málum í utandeildinni með 14 stig í 2. sæti, hefur unnið sjö leiki og tapað tveimur.