Selfoss er úr leik í bikarkeppni kvenna í handbolta eftir 27-23 tap gegn Stjörnunni í undanúrslitaleik í Laugardalshöllinni í dag.
Selfossliðið byrjaði alls ekki nógu vel og skoraði ekki mark fyrr en á áttundu mínútu leiksins. Stjarnan komst í 4-0 en Kristrún Steinþórsdóttir jafnaði 4-4 fyrir Selfoss á tólftu mínútu. Eftir það var jafnt á öllum tölum upp í 9-9 en Stjarnan tók Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur úr umferð á lokamínútum fyrri hálfleiks og Hönnulaus var sóknarleikur Selfoss ekki að ganga. Stjarnan náði því fimm marka forystu og leiddi í hálfleik, 15-10.
Seinni hálfleikurinn var kaflaskiptur. Selfossliðið mætti hresst til leiks og minnkaði muninn í 18-16 eftir rúmar tíu mínútur en þá kom slæmur kafli og Stjarnan skoraði fjögur mörk í röð, 22-16. Selfoss náði ekki að brúa bilið en minnkaði muninn í í þrjú mörk, 23-20, og elti Stjörnuna eins og skugginn allt til leiksloka.
Hrafnhildur Hanna var lang markahæst Selfyssinga með 12/5 mörk. Kristrún Steinþórsdóttir og Dijana Radojevic skoruðu báðar 3 mörk, Arna Kristín Einarsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir 2 og Carmen Palamariu 1.
Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 8/1 skot í marki Selfoss.
Stjarnan mætir annað hvort Fram eða Haukum í úrslitaleiknum, en liðin eigast við í kvöld.